laugardagur, september 23, 2006

Að velja eða láta velja fyrir sig

Hér í landi frelsis og einstaklingshyggju sit ég og böðlast í gegnum grein sem fjallar um ólík viðhorf skólakrakka til þess að velja. Viðhorf þeirra mótast af menningu sem þessir krakkar alast upp við. Nemendur sem eru afkomendur evrópsk-amerískra foreldra vinna betur að verkefnum sem þeir fá að velja sjálfir. Aftur á móti vinna nemendur sem eru afkomendur asísk-amerískra foreldra (og tala móðurmál foreldra sinna heima) einkar vel ef einhver sem þeir þekkja (s.s. mamma þeirra/bekkjarfélagar) velja fyrir þá. Hvað skyldi eiga best við íslenska skólakrakka?

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

...ég myndi segja að það virkaði best að láta krakkana halda að þeir fái að velja. Eða allavega hafa valið mjög afmarkað. Síðan er náttúrulega alltaf vinsælt að fá eitthvað í staðinn, græða eitthvað skiluru.
Kveðja Tengdadóttir

Nafnlaus sagði...

ég hef kennt lengi í skóla þar sem nemendur telja að þeir ráði nánast alveg hvað þeir gera í mörgum tímum dagsins og flestum líkar það vel. Svo kom einn fyrrverandi nemandi og fór að kenna við skólann og hún varð hálfspæld þegar hún uppgötvaði að skipulagið var þannig í kringum valið að hún hafði eiginlega ekki ráðið neinu.
Mín reynsla er sú að þau börn sem búa við strangan aga heima og mikla ytri stýringu eigi erfiðara með að nýta sér möguleikann til að velja sér viðfangsefni á uppbyggilegan hátt. Það sama á við um börn sem búa við lítil mörk og annarskonar vanrækslu. Börn sem hafa alist upp við áherslu á sjálfstæðan vilja og nokkuð stabílt atlæti virðist henta best að fá að velja...
Svona getur maður nú alhæft út frá sinni löngu kennslureynslu.
Edda

Rósa sagði...

Gaman að heyra frá kennslukonum, bæði nýgræðingum og gömlum í hettunni. Ef maður heldur að maður hafi val þá finnst manni að maður hafi visst frelsi, ekki satt? Mér finnst stundum mjög gott að láta velja fyrir mig en þá er ekki um að grundvallaratriði að ræða - heldur t.d. hvað á að vera í matinn eða hvort horft verður á þessa eða hina myndina í bíó.

Ég er sammála því sem ed bendir á, að það fer eftir því hverju börn venjast hversu vel þau geta nýtt sér möguleikann til að velja. Það fer sem sagt eftir uppeldi og menningu. Það sem Katrín um að fá eitthvað í staðinn skiptir líka máli: Getur innri hvatning dugað? Ef ég vel þá er ég að gera eitthvað sem mig langar sjálfri til að gera og því ætla ég að vinna verkið vel.

Rósa sagði...

Ætlaði að skrifa Edda en hætti við og ákvað að nota upphafsstafina hennar og útkoman varð hvorugt! Því stendur ed í stað ek/Edda.