miðvikudagur, desember 20, 2006

Að vera kennari - hvað þýðir það eiginlega?

Ég hef verið að lesa fræðigreinar um kennarastarfið í allt haust. Mér þykir afar skemmtilegt að lesa þessar greinar - og um leið og ég les máta ég hugmyndirnar við okkur; við frábæra kennara og samstarfsmenn eins og Brynjúlf og Svein, Lóu og Ósu; við kennara utan MS eins og Ragnhildi og Ragnheiði Margréti; Hafdísi R og Ólöfu I og marga, marga aðra. Það er einmitt það skemmtilegasta; þegar ég vakna upp úr lestrinum og hugsa: Já, alveg eins og Brynjúlfur; eða: Ég er viss um að Ólöf gerir þetta svona!

En hver er kjarninn í því að vera "góður" kennari? Við því er ekkert eitt svar en nokkur atriði virðast sameiginleg. Mikilvægasta atriðið er að kennarinn láti sér annt um nemendur - á þann hátt að nemendur finni það. Ef nemendum finnst sem kennarann skipti máli hvernig þeim líður, áhugamál þeirra og aðstæður þá læra þeir alla jafna betur! Hugsið ykkur! Það skiptir krakkana sem sagt máli hvað okkur finnst (eða öllu heldur skiptir máli að krökkunum finnist að okkur sé annt um þau). Og hér skiptir ekki máli á hvaða aldri nemendur okkar eru. Þetta er allt um skynjun og upplifun!

Annað mikilvægt atriði tengist kröfunum sem kennarar gera. Afar mikilvægt er að gera kröfur, skapa andrúmsloft þar sem ríkir spenna og á stundum kvíði. Ekki dugir að kenna hæfilega; til að nemendur bíti á agnið þarf að skapa andrúmsloft þar sem nemendur eru ekki vissir um að ráða við viðfangsefnið. Merkilegt! Spenna og kvíði og þau læra! En hvað er aðeins meira en hæfilegt? Þar kemur að list kennarans, hann verður sjálfur að finna það út. Kennarinn þarf sem sé líka að vera listamaður. Hvorki er nóg að kennari sé vel að sér í fræðigreininni, sem hann er að kenna né dugir að vera flinkur í agastjórnun og kennsluatferðum. Kennarinn þarf líka að vera listrænn stjórnandi bekkjarins til að námið verði eins gott og hugsast getur. Þetta atriði þarf að hafa í huga við skipulagningu kennaramenntunar.

Einnig er afar mikilvægt að kennarar hafi innsýn í menningarheima sem nemendur þeirra koma frá - og þetta er auðvitað sérlega brýnt á tímum þegar fólk flytur á milli landa. Við Íslendingar þurfum að hafa þetta í huga þegar við tökum á móti innflytjendum. Kennarar þeirra krakka sem koma frá öðrum löndum þurfa stuðning og fræðslu um þann heim sem krakkarnir koma frá. Eitt enn sem skiptir máli og tengist ekki síst stjórnendum er að skólinn hafi skýr og háleit markmið. Þar kemur til ykkar kasta, Hjördís, Már og Halla! En stjórnendur þurfa sannarlega meira en háleit markmið. Skrifa um það fljótlega.

Engin ummæli: