laugardagur, maí 26, 2007

Ferðalag með myndasmiðum og stelpum

Titillinn er útúrdúr úr nafni á ljóðabálki eftir Steinunni Sig sem ferðaðist með myndasmið og stelpu. Ég fór í ferðalag með tveimur myndasmiðum/stelpum . Þær eru líka mjög góðir og skemmtilegir ferðafélagar (enda vel þjálfaðar ... dætur mínar). Við ókum highway 101 og California highway 1 frá LA til San Francisco. Leið 1 liggur með vesturströndinni og minnti landslagið og bugðóttur vegurinn okkur stundum á Barðaströndina og stundum á Bergen og nágrannabyggðir. Samlíkingin hvarf þó þegar við stigum út úr bílnum því lofthitinn var gjörólíkur. Þarna vorum við í þriggja daga ferðalagi einingis klæddar hlýrabolum úr hýjalíni og pilsgopum, berfættar í sanddölum. Ef maður gæti alltaf ferðast svona létt.

Leið 1 er engan veginn í alfaraleið. Tvö þorp voru merkt á kortið, Gorda og Big Sur, og meira að segja okkur Íslendingunum þótti fullmikið í lagt að kalla þau þorp. Þau seldu þó bæði bensín og var gallonið dollara hærra þar en á dýrustu bensínstöðvum í San Diego. Í Big Sur fengum við líka ljúffengar samlokur, risastórar og gómsætar að hætti amríkana. Við endann á leið 1 komum við í Carmel sem mér sýndist hinn vænsti póstkortabær með frábærri gullni strönd.

Við náðum til San Francisco rétt eftir sólsetur og fengum þetta fína hótelherbergi á Market street rétt við Castro street. Við skoðuðum næturlífið í nágrenni hótelsins og þá sannaðist hið fornkveðna að engin kann sig í góðu veðri heiman að búa. Okkur hefði ekki veitt að íslenskum fatnaði á kvöldrölti okkar í San Francisco.

Frá San Francisco flaug Hjördís Alda til Parísar (með stoppum). Við Auður ókum hins vegar heim til San Diego og nú lá leiðin um vínhéraðið norður af San Louis Obispo (aðalsögusvið í bíómyndinni Sideways - ég horfði aftur hana í vikunni og hafði mun meiri ánægju af henni eftir að hafa verið á svæðinu).

Leiðin sem við ókum er "heimsfræg" og borgin San Francisco ennþá frægari. Þrátt fyrir það voru myndasmiðirnir/stelpurnar það besta við ferðina.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þú ert svo sæt. hlakka til að lesa bókina. ég býð mig svo fram í þýðingu svo að aðdáendurnir á point loma geti lesið. svo er það bara útgáfutúr, ég get verið aðstoðarmaður og haldið á pennanum. eða tekið myndirnar sem þú svo áritar... :)
kv. myndasmidur & stelpa

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa þessa ferðasögu. Fengum smá skammt af hita í dag, meira að segja 18° á Mýrunum. En það var auðvitað frekar skýjað og þó nokkur vindur. Væri til í að fá 25°í einn dag í logni. Nú á að fara að rigna. Sendu okkur sólargeisla með næstu vél :)

Kveðja
Ásdís

Nafnlaus sagði...

Kæra Ásdís, ég skal gera hvað ég get til að þið fáið sólargeisla. Ég er sjálf svo sólbrennd að ég held mig innan dyra. Gleymdi mér í sólinni.

Til myndasmiðs/stelpu segi ég bara: Takk.