fimmtudagur, maí 31, 2007

Fjarvera okkar kennara í umbótum á skólastarfi

Í skemmtilegri og athyglisverðri grein í Skólavörðunni (4. tbl. 2007) skrifa Edda Kjartansdóttir og Eiríksína Kr. Ásgrimsdóttir um stöðu kennara og benda á að í leiðtogafræðum er litið framhjá kennaranum sem leiðtoga þrátt fyrir mikilvægi hans "sem leiðtoga í lífi barna". Edda og Eiríksína leita skýringa á fjarveru kennarans í umræðum um leiðtogafærni og hvetja kennara til að skilgreina hlutverk sitt upp á nýtt og að taka sér "leiðtogahlutverk sem hæfir í breyttu samfélagi." Þær Edda og Eiríksína segja að fyrsta skrefið fyrir kennara sé að tala sig "frá kvörtunum í átt skuldbindingum og frá ásökunum í átt ábyrgð." Það sem Edda og Eiríksína eru að tala um minnir mig á sumt sem ég hef verið að átta mig á hér fyrir vestan.

Þegar ég kom hingað til San Diego í ágúst í fyrra heyrði ég mikið talað um skólastjóra sem instructional leaders. Fyrrum fræðslustjóri í skólaumdæminu, Alan D. Bersin, hafði lagt megináherslu á að skólastjórar styddu við kennara með því að skoða kennslu og veita kennurum endurgjöf jafnóðum. Stefnan var að nemendur væru miðpunkturinn í skólastofunni, þeir væru að vinna að verkefnum, prófa sig áfram með tilraunir, taka þátt í samræðum en kennarinn átti að leiða þá áfram. Haldin voru tíð námskeið og ráðstefnur fyrir skólastjórana, eða öllu heldur kennsluleiðbeinendurna, og fræðslustjóri eða aðstoðarmenn hans mættu í skólana til að styðja og leiðbeina stjórnendum. Margir voru nokkuð með þessa stefnu en svo var ekki um alla og sumarið 2005 var nýr fræðslustjóri, Carl A. Cohn, óvænt ráðinn. Sú ráðning varð til þess að umbætur fyrri stjóra voru settar í salt.

Um daginn fékk ég svo skýringu á fræðslustjóraskiptunum. Skýring þessi er komin frá aðstoðarskólastjóra hér í San Diego sem kynnti sér málið vandlega og kynnti fyrir okkur í kúrsi USD. Aðstoðarskólastjórinn sagði það sem hefði fyrst og fremst misfarist hefði verið að beina ekki umbótunum til allra í skólasamfélaginu. Þannig var að þegar fyrri fræðslustjórinn hóf endurmenntun og endurskilgreiningu á starfi skólastjóra þá snerist allt um stjórnendur og millistjórnendur. Kennarar urðu hins vegar útundan í umbótunum og meðal þeirra greip um sig ótti og óánægja. Þessar tilfinningar urðu loks svo sterkar að ákveðið var að segja umbótasinnaða fræðslustjóranum upp. Trúlega hefði það átt að vera hlutverk skólastjóranna, sagði aðstoðarskólastjórinn, að kynna hugmyndafræðina á bak við breytingarnar meðal kennaranna en stjórnendur voru uppteknir að læra nýtt hlutverk svo það fórst fyrir. Aðstoðarskólastjórinn sagði að umbæturnar og hugmyndafræðin að baki þeim hefði verið mjög góð en því miður ekki náð í gegn þar sem mikilvægur hluti starfsmanna sem umbæturnar áttu að ná til var ekki með í ráðum og ekki var gert ráð fyrir tíma og fjárveitingum til að kynna þeim málið.

Hér hefði fræðslustjórinn þurft að muna að kennarar eru hluti leiðtoganna í skólanum. Hann hefði átt að skapa aðstæður í skólunum svo að kennarar væru með í umbótunum, svo sem með því að halda reglulega fræðslu- og upplýsingarfundi um þær og gefa kennurum kost á að tjá sig um breytingarnar. Kennararnir hefðu þurft að skoða málið betur áður en þeir notuðu ótta sinn við breytingar til að knýja fram nýjar breytingar (fræðslustjóraskiptin). Þeir hefðu ekki átt að kvarta strax heldur knýja á um að þeir væru með í umbótaferlinu.

Engin ummæli: