

Rósa... Santa Fe virðist öll byggð í sama stílnum, byggingar brúnleitar, stundum rauðbrúnar og sjaldnar okkurgular. Við vorum lengi að finna miðbæjarkjarnann en þegar það lokst tókst sáum við gamla og fallega kirkju, fullt af búðum með fögrum listmunum, útimarkað og afar skemmtilega hönnuð hús. Við gerðum stuttan stans í Santa Fe en ókum alla leið til Taos en tókum lykkju á leið okkar til að fara á útihátíð.
Í Santa Domingo var hátíð Santa Domingo indjánaættbálksins og í henni tóku líka þátt fulltrúar frá öðrum ættbálkum, t.d. bæði Hopi og Acoma. Við hittum þar aftur leirkerasmið frá Acoma sem hnýtir hrosshári saman við leirinn sinn. Aftur á móti sáum við hvergi Steindu Ör en teljum að hann hafi verið meðal dansaranna og við því ekki þekkt hann þar sem dansararnir voru allir klæddir í alls konar búninga og skreyttir grenigreinum. Þessi hátíð var opin öllum en yfirleitt eru trúarhátíðir indjána lokaðar aðkomufólki. Regndansinn var þungamiðja hátíðarinnar. Það var áhrifamikið að fylgjast með dansinum sem náði yfir aðaltorg og götu bæjarins. Ég get ekki ímyndað mér hve dansararnir voru margir en þeir fylltu svæði sem er sambærilegt við Lækjargötu, frá gatnamótunum við Austurstræti og að Tjörninni. Dansarar voru karlar, konur og börn á öllum aldri. Ég hafði ekki búist við að sjá börn og unglinga taka þátt í dansinum en þau höfðu greinilega sitt hlutverk og voru ekki að dansa í fyrsta sinn.
RMG . . . Tek undir með Rósu; það var afar áhrifamikið að sjá dans indíánanna. Fyrirfram hélt ég að þetta yrði einhvers konar túristasýning en þegar við komum á staðinn sáum við að þetta var alvörusamkoma og dansinn var alvörutrúarathöfn. Þau dönsuðu lengi, lengi, karlar og konur og börn, í sól og steikjandi hita og dansararnir voru skreyttir og málaðir og allir báru þeir grenigreinar. Nokkrir voru með skjaldbökuskeljar hringlandi utan á sér í takt við trumbusláttinn. Allt hafði þetta táknræna merkingu sem ég kann ekki að skýra. Þarna mátti ALLS EKKI taka myndir og til marks um hve alvarlegt þetta bann var sáum við þegar myndavél var tekin af manni sem hafði stolist til að taka mynd. Það var sæst á málamiðlun, hann fékk að halda myndavélinni en minniskubburinn var gerður upptækur.Í dag skoðuðum við Taos Pueblo sem er indíánaþorp á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta er eldgamalt þorp sem á sér langa sögu, húsin eru gerð úr leir og þarna býr fólk ennþá án nútímaþæginda, eins og vatnsleiðslu og rafmagns. Það var áhugavert að koma þarna en þetta þorp var ekki eins lifandi og Valpi og Acoma; meira eins og Árbæjarsafn en þó með íbúum. Við komum inn á verkstæði leirkerasmiðs sem var að störfum en hún var í símanum að tala við manninn sinn um að skreppa í bíó í kvöld. Í Taos Pueblo máttum við taka myndir gegn gjaldi og næstu þrjár myndir eru úr þorpinu.



Taos er skemmtilegt þorp; hér búa listamenn og gamlir hippar - og Julia Roberts. Við tókum það rólega hér í dag, skoðuðum gallerí og keyptum indíánateppi. Við eru orðnar dáldið lúnar og stífar í skrokknum eftir langar setur í bílnum. Þess vegna fundum við þetta fína spa þar sem Rósa gat gert leikfimisæfingar meðan ég fór í heita potta og gufubað og svo fengum við alnudd og erum nú eins og nýslegnir túskildingar. Þegar við komum aftur á hótelið, The Historic Taos Inn, var hljómsveit að spila bluegrass tónlist og þar var brjálað fjör fram eftir kvöldi.
Á morgun höldum við til Colorado - það er farið að síga á seinni hlutann. Við fljúgum frá Denver á þriðjudagskvöldið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli