laugardagur, ágúst 26, 2006

Heimili við hafið


Búnar að koma okkur fyrir í San Diego; komnar með íbúð, bíl og bankareikning, sjónvarp og nettengingu, borð stóla og rúm, bolla, diska og hnífapör. Allt tók þetta heilmikinn tíma og orku. Það er afar lærdómsríkt að stofna heimili í nýju landi og við erum eiginlega hoknar af visku um hvernig best er að skrá sig fyrir gasi og rafmagni, hvernig maður tryggir og skráir bíl, pantar varp og net (við vorum t.d. orðnar svarnir óvinir fyrirtækisins Cox Communication sem kallar sig "our friend in the digital age"), hvar er best að kaupa þetta og skila hinu auk þess sem við erum orðnar góðkunningjar bílaleigunnar Cheap Dirt Car Rental (en bíll frá þeim var í gangi fyrir utan húsið okkar í heilan sólarhring því ekki var hægt að drepa á honum!). Suma daga hefur verið líkast því sem jólin væru komin því við vorum alltaf að opna kassa með nýju og nýju dóti. En nú erum við sem sagt búnar að koma okkur fyrir í þriggja herbergja íbúð við Coronado Avenue á Ocean Beech. Getur ekki orðið betra.

Engin ummæli: