föstudagur, september 15, 2006

Bílpróf

Í morgun mættum við Auður í bifreiðaeftirlitið (Department for Motor Vehicles) í San Diego. Við þurftum að taka skriflegt ökupróf til að öðlast ökuréttindi hér vestra. Þarna hitti ég ungan mann sem sagði mér að hann hefði verið að reyna við skriflega prófið í þriðja sinn. Hann var ægilega áhyggjufullur og hjálparlaus, talaði bjagaða ensku og sagðist koma frá landi þar sem umferðareglur væru gjörólíkar. Áður en ég hafði tækifæri til að spyrja hvaðan hann væri var hann kallaður upp og farið yfir prófúrlausnina hans. Þegar því var lokið gekk hann beygður út og sú sem fór yfir sagði mér að hann hefði ekki náð prófinu. Mikið vorkenndi ég honum því hann var nú búinn með þau þrjú tækifæri sem gefin eru til að ná prófi. Flestir fóru þó brosandi út, gamlir og ungir, íslenskir, kóreanskir, víetnamskir og bandarískir. Og vel á minnst, Kóreubúarnir fengu prófið á sínu eigin tungumáli og líkast til Víetnamarnir líka. En Íslendingar og dapri kunninginn minn tóku prófið á ensku.

Engin ummæli: