þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Tilgangur og markmið

Við það að stunda reglulega ígrundun, ýmist á því sem ég hef verið að lesa eða á verkefnum sem mér hafa verið sett fyrir, hef ég oft staldrað við tilgang og markmið. Í dag las ég fjórar greinar sem snúast meira eða minna um tilgang okkar í lífinu, stefnu og viðmót. Hvers varð ég vísari við lesturinn? Til dæmis að leiðtogahlutverk getur verið mjög hættulegt, að langskólagengnir fagmenn með toppeinkunnir á öllum sviðum eiga oft erfitt með að læra, að annríki er menningarsjúkdómur Vesturlandabúa og að viðhorf einstaklinga ræður mestu um hvernig þeim líður. Fæst ef nokkuð af þessu er nýtt en engu að síður vöknuðu alls kyns hugmyndir við lesturinn.

Leiðtogar takast á við vandamál sem ekki er hægt að leysa með sérfræðiþekkingu. Þeir fást við vanda sem liggur í maganum og hjartanu. Hér á ég við sanna leiðtoga - ekki leiðtoga að nafninu til einu saman. Vandi magans og hjartans er margvíslegur en ef lausn á þessum vanda finnst þá mun hún undantekningarlaust hafa í för með sér breytingu á högum fólks, viðhorfum, gildismati og aðstæðum.

Það er ekki nóg að geta lært, maður verður að vilja læra og vera fús að fórna einhverju fyrir þekkinguna. Þetta vissi Óðinn, sem hékk í tré í níu nætur og níu daga, þjáður og þjakaður, en var margs vísari á eftir. En samkvæmt því sem ég las í dag (og reyndar sem skynsemin segir mér) vilja fæstir færa þann fórnarkostnað sem ný þekking krefst - og það er mjög skiljanlegt. Segjum að þessi nýja þekking segi okkur að nauðsynlegt sé að umsnúa neysluvenjum okkar; aftengja veraldarvefinn og leggja símunum, kasta öllum bílum á haugana, loka öllum dagheimilum og banna konum að lita á sér hárið. Myndum við vilja viðurkenna þessa þekkingu? Ætli við myndum ekki vísa henni á bug sem villukenningu og halda okkar striki; keyra á bílum, með litað hár og síma við eyrað á leikskólann með fimm ára dóttur okkar? Að minnsta kosti sé ég ekki fyrir mér líf mitt hér í San Diego án veraldarvefsins og netpósts.

Svo er það hið ofsalega annríki. Allir hafa hafa svo mikið að gera; ef einhver er staðinn að verki við að gera ekki neitt, bara að raula eða horfa á rigninguna eða hugsa um mömmu sína eða hlusta á vindinn, þá er ljóst að hér er á ferðinni metnaðarlaus iðjuleysingi. Setningar eins og: Ég hef ekki tíma - má ekki vera að þvi - ekki núna, seinna - gerum það þegar ég hef tíma, heyrast oft á dag. Hvers vegna? Kannski við fáum "kikk" út úr því að vera önnum kafinn, adrenalínið streymir um æðarnar og við erum sannarlega menn með mönnum (mig langar að segja konur með konum en ...). Leitum skýringa á því hvers vegna við erum alltaf tímabundin og reynum að slaka á af og til.

9 ummæli:

ramagu sagði...

Stundum notum við annríkið sem afsökun til að forðast það sem við nennum ekki að gera. Okkur er nefnilega ekki kennt að segja kurteislega: „Ég nenni því hreinlega ekki.“

Rósa sagði...

Svo er stundum spennandi ad vera onnum kafin, adrenalinid flaedir um aedarnarn og manni finnst sem madur geti haldid afram endalaust. Eins er annrikid visbending um ad her se a ferdinni madur med monnum (kona med konum) en ekki audnuleysingi. Hver vill vera talin letingi eda looser?

Nafnlaus sagði...

Sælar
Maður þarf að passa sig að skipuleggja dagana á misjafnan hátt. Suma daga er allt vitlaust að gera. Svo þarf að hafa Sunnudaga líka til að slappa vel af. Það er óþarfi að skipuleggja þá á eins og hvern annan vinnudag.
Þess á milli er gott að fara í göngutúra og hreinsa hugann - hugsa um ekki neitt og ná fókus aftur.

kveðja
Svenni

Rósa sagði...

Rétt; við þurfum að passa okkur á ofskipulagi. Svenni, þú ferð auðvitað í messu á sunnudögum til að rækta sálina. Reyndar held ég að jóga geri meira fyrir mig en messuferðir!

Rósa sagði...

Meðal annarra orða, ramagu. Hvenær má ég tengja síðurnar okkar?

Nafnlaus sagði...

Annríki er ofmetið. Sjálfur hef ég þann djöful að draga að taka of mikið að mér og geta ekki sinnt þeim sem mér standa næst eins og ég vildi helst. Þetta lýsir sér á margan hátt, td uppgötvaði ég það núna áðan að ég hef ekki lesið þennan skemmtilega Blog vef kærrar systur minnar frá því fyrir síðustu mánaðamót. Ég var í það minnsta ekki búinn að sjá hugleiðingu um hrekkjavöku og það sem fylgir þar á eftir.
Í dag er hins vegar góður dagur því í morgun hringdi ég í GG bróður minn og við ákváðum að fara saman með fjölskyldurnar í keilu núna í eftirmiðdaginn og panta okkur svo pítsur og hafa það huggulegt saman í Byggðarendanum í kvöld. Ég hlakka mikið til.
Kveðja,
Þröstur

Rósa sagði...

Æðislegt! Við Auður hefðum viljað vera með ykkur - en það verður bara næst.

Nafnlaus sagði...

Þetta varð enn betra því leigjendurnir á neðri hæðinni slógust í hópinn þegar koma að desertinum og kaffffiiiii...

Rósa sagði...

Gott að heyra, þá hefði ég auðvitað ennþá meira viljað vera með. Samt er best að heyra að allt er gott að frétta af ykkur. Bestu kveðjur, systir í SD.