Fór með drauma Guðrúnar Ósvífursdóttur og draum Guðrúnar, móðurinnar í Englum alheimsins, í enskri þýðingu, í eina af fjölmörgum kirkjum hverfisins. Messaði þó ekki fyrir altari heldur kenndi eftirlaunaþegum sem sækja tíma í College for Continuous Education. Það var mjög gaman að hitta þetta fólk og segja því dálítið um íslenskar bókmenntir. Þau féllu í stafi yfir frábærum Englum og heilluðust af Guðrúnu Ósvífursdóttur. Ég sagði þeim að allir Íslendingar tryðu á drauma og bækur og náttúruna!
Ástæða þess að ég var að kenna þarna er sú að á Starbucks kaffihúsinu okkar á Ocean Beach situr kennari þessa fólks, Louise, löngum stundum við skriftir. En á milli þess sem hún skrifar fylgist hún með gestum og rabbar við alla sem eru nýir í hverfinu eða tala erlend tungumál og ensku með sérkennilegum hreim. Þannig fær hún fólk víðs vegar að til að kenna hjá sér og nemendur hennar eru ákaflega stoltir og ánægðir af kennara sínum. Í næstu viku fá þau í heimsókn skoskan fræðimann, sem hefur búið lengi í Rússlandi til að koma í kirkjuna og ræða um Solzhenitsyn.
Hún Louise er kvenskörungur, um það er engum blöðum um það að fletta, né heldur um hitt að Englar og Íslendinga sögur verða vinsælar á hverfisbókasafninu á næstunni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Sama á við um hverfisbókasafnið í Sólheimum, hvar ungmenni keppast við að láta mig gera sig húkkt sem sagt er á Íslendingasögunum.
Hver segir svo að Íslendingasögur séu forneskja!
Skemmtilegt að heyra það.
Ég fékk ljóðabókina þína um helgina og las hana strax. Er hrifin af henni og stolt af þér. Sum ljóð afar góð og engin slæm! Ætla með ljóðabókina þína þegar ég fer næst í kirkjuskólann en þá er ljóðatími.
Skrifa ummæli