Hef verið á kafi í uppeldis- og kennslufræðum um hópa, stofnanir og einstaklinga. Hvað er sameiginlegt með konu og saumaklúbbi? Samkvæmt því sem ég hef lært nýverið er svarið afar flókið en byggir á því sem allir þekkja: sambandi barns við móður (eða sambandsleysi ef þannig ber við). Sem ungabarn var konan í nánum tengslum við móður sína, var háð henni bæði líkamlega og andlega á allan hátt. Á sama hátt er saumaklúbburinn hópur sem byggist á tengslum nokkurra einstaklinga, kvenna oftast nær, og klúbburinn eða hópurinn leitar, eins og ungabarnið, eftir styrk, næringu og vernd hjá móðurinni, sem í þessu tilfelli er auðvitað ímynduð. Saumaklúbburinn er í hugum kvennanna, ómeðvitað auðvitað eins og svo margt í þessum heimi, ein heild sem fær styrk sinn frá móðurinni. Yfirráðasvæði móðurinnar, yfirráðasvæði saumaklúbbsins er byggt utan um menningu sem einstaklingarnir, "saumakonurnar" telja að sé hin rétta og hegða sér þannig að þær falli að þeirri menningu. Saumaklúbbsmenningin einkennist af öryggi og kátínu og næringu sem dugir að minnsta kosti fyrir tvo saumaklúbba í viðbót. Samfélagið er svo byggt upp af aragrúa kvenna og saumaklúbba og karla og fótboltaliða og fullt af öðrum klúbbum, liðum og hópum. Samfélagsheildin þarf líka á hinni miklu móður að halda og hverfist um yfirráðasvæði móðurinnar.
Hvernig líst ykkur á þetta? Ég skil fátt eitt af því sem ég hef skrifað og þætti vænt um að fá útskýringar, ekki síst þar sem ég er að skrifa ritgerð um þetta efni. Auk þess er ég nýkomin af ráðstefnu þar sem markmiðið var að skynja þetta, finna fyrir móðurinni miklu, menningunni og söngnum sem hljómaði undir orðunum sem voru sögð. Áhrifaríkt og lærdómsríkt en erfitt að skilja og færa í orð - bæði íslensk og amrísk.
Samfélagið, hópar þess og einstaklingar eru auðvitað óútreiknanleg fyrirbæri sem er svo skemmtilegt. Fyrir mig er sérlega ánægjulegt, og sýnir hve fræðin eru í raun léttvæg og lítils megnug miðað við praktíkina þegar allt kemur til alls - að á sama tíma og ég er að glíma við tengslin við móðurina og yfirráðasvæði hennar, áhrif hennar á mig og uppvöxt minn og þroska mætti mamma mín á svæðið. Elskuleg og alltumvefjandi móðir min er komin til San Diego!
PS: Talandi um saumaklúbba þá hefur mamma ekki verið í neinum slíkum en er eigi að síður sérlega flink saumakona!
PS2: Edda og aðrir áhugasamir lesendur. Ef þið viljið reyna að skilja þetta (betur) þá bendi ég á Stapley, Lionel F. (2006). Individuals, Groups, and Organizations beneath the Surface. Karnac, London, New York.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Sæl systir góð
Ég er ekki viss um að fullyrðing þín um að mamma hafi ekki verið í neinum saumaklúbbum eigi við rök að styðjast. Ég man í það minnsta eftir "klúbbi/um" sem falla alveg undir skilgreiningu saumaklúbba, allavega þá sem ég þekki úr mínu hjónabandi. Þetta voru og eru góðar konur sem veita hver annarri stuðning í dagsins amstri, hvor sem um er að ræða erfiða tíma eða fagnaðarstundir. Ég hef orðið þess áskynja í kringum ykkur tvær að góður "saumaklúbbur" / leshringur eða hvaða nafni sem menn vilja leggja á fyrirbærið er ómeganlegur þegar einstaklingurinn er viðkvæmur/brothættur eftir hremmingar eða áföll lífsins. Sjálfur hef ég verið í og haldið saman karlaklúbbi sem hittist á tímabili í hádeginu einu sinni í mánuði. Þetta er allt annað fyrirbæri og ekki nærri eins mikil nánd eins og í góðum "saumaklúbbi". Allt er yfirborðskenndara og helst ekki snert á persónulegum málefnum nema rétt yfirborðslega. Eins og sést er ég sannfærður um mikilvægi "saumaklúbbanna" og lýk því máli mínu á eftirfarandi máta".
LIFI SAUMAKLÚBBARNIR.
Þröstur minn! Þetta er alveg rétt hjá þér, mamma er í saumaklúbbi sem er haldinn annan hvern mánudag. Ég spurði hana og tek til baka fullyrðingu mína um að mamma hafi ekki verið í saumó. Þótt karlaklúbbar séu líkast til, amk þinn, meira á yfirborðinu heldur en í kafsundi þá falla þeir undir sömu skilgreiningar og allir aðrir hópar samfélagsins. Þeir haldast saman á einhverju lími, hugsanlega yfirráðum móðurinnar (maternal holding environment). Ég tek undir með þér kæri bróðir: Lifi saumaklúbbarnir!
Skrifa ummæli