Eftir viðburðaríka páska er gott að njóta kyrrðar og einveru. Ég er ein heima, Guðmundur og Katrín Tinna komin heim til Íslands og Auður og Hjördís Alda í skemmtiferð í Minneapolis með pabba sínum. Það kemur sér ágætlega þar sem ég þarf að lesa margt og skrifa mikið. Ég var að ljúka við afar athyglisverða bók eftir Arundhati Roy, The Algebra of Infinite Justice og mæli með henni við alla en einkum þá sem hafa áhuga á eða áhyggjur af stíflugerð (reyndar þekkja andstæðingar Kárahnjúkavirkjunarinnar örugglega greinar A.R.). Auk ítarlegrar umfjöllunar um "stíflupólitík" á Indlandi tekur Arundhati fyrir kjarnorkuvopn og ógnina og óttann sem tilurð þeirra skapar, stríð gegn hryðjuverkum og fáránleikann í þvi stríði og nafn greinarinnar War is Peace undirstrikar heim andhverfa og öfugmæla. Auðhringar, mútuþægir og valdagírugir stjórnmálamenn, hnignun lýðræðis en uppgangur fasisma er meðal þess sem Arundhati fjallar um en meginþema bókarinnar er vald og misbeiting þess.
Ég er einnig að lesa bók sem heitir Peace is Every Step eftir Thich Nhat Hanh þar sem viðfangsefnið er meðvitund og skilningur á sjálfri sér og öðrum. Í bókinni er farið yfir hvernig menn sá ýmist góðvild eða illsku en með þjálfun athyglisgáfu okkar, eftirtekt og skilningi getum við valið að vekja gæsku og sýna samhygð. Samhliða þessari bók er ég að lesa Meditation eftir Eknath Easwaran. Þessar bækur fjalla báðar um hugleiðslu og aðferð við að ná tökum á henni. Í þeim er kynnt leið til að snúa frá hinni ógnvekjandi heimsmynd, sem blasir við mannkyni og Arundhati dregur upp í sinni bók. Sú leið er að stunda sjálfskoðun og íhugun, að styrkja hið góða í einstaklingum og læra að vinna úr reiði og hatri á uppbyggjandi hátt.
Bók Arundhati er alger andstæða hinna tveggja og þó eiga þessar bækur afar mikilvægt atriði sameiginlegt: Allar leggja þær áherslu á samábyrgð manna. Við mannfólkið berum ábyrgð á því sem er að gerast í kringum okkur og ekki bara í nánasta umhverfi heldur í allri veröldinni. Ef börn svelta, unglingsstúlkur leiðast út í vændi, pólitíkusar misnota vald sitt, loft og vatn er mengað af eiturefnum er það af því að við leyfum því að gerast. Við berum öll ábyrgð og andvaraleysi eða afstöðuleysi er ekki afsökun.
föstudagur, apríl 20, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hún er alveg yndisleg þessi hugleiðsla þín! Væri alveg til í að læra aðeins meiri hugleiðslu hjá þér. Þetta hefur nú líka nýst mjög vel t.d. þegar ég var að reyna að snúa sólahringnum við í takt við þann íslenska og þegar ég var að reyna að minnka hnútinn í maganum fyrir vinnuna... þá notaði ég trixið frá þér stress út - friður inn. ...síðan kyrjum við Gummi líka oft saman óðinn til Shamu (ShamuShamu hú hú). Þetta líf þetta líf!!
Þú ert svo skemmtileg, Katrín! Takk fyrir að hlæja mikið með mér um páskana.
Einbeitning modir, uff! Tu ert dugleg.
Skrifa ummæli