sunnudagur, maí 06, 2007

Mín elskulega tengdadóttir hefur ein skrifað um siðferði-

klemmu farþegans hér á blogginn minn. Hún hefur skrifað skynsamlega og skemmtilega eins og hennar er von og vísa. Hér er aðeins meira um klemmuna en hana er að finna í einni kennslubókinni minni, Meeting the ethical challenges of leadership eftir Johnson (2. útg. 2005), ég aðlagaði hana aðeins að mér/konum og Íslandi/kílómetrum á klukkustund. Klemmunni fylgdu upplýsingar um að yfir 90% aðspurðra Kanadamanna, Bandaríkjamanna, Ástrala og Norður-Evrópubúa myndu neita að segja ósatt í tilviki eins og þessu. Aftur á móti væru Suður-Kóreumenn, Venesúelabúar og Rússar líklegir til að segja ósatt. Merkilegt!

Því miður eru engar upplýsingar um kyn, starf eða stétt svarenda né hvernig þessi niðurstaða fékkst. Í umræðum í kennslustund þótti bekkjarfélögum mínum alveg með ólíkindum að 90% landa þeirra gætu hiklaust sagt að þeir myndu ekki ljúga. Bekkjarfélagarnir eru að mestu fólk á þrítugsaldri, konur um það bil 2/3 en karlar rest.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég tek það fram að ég var ekki búinn að lesa þessa athugasemd þegar ég gaf "comment" á þá síðustu. Ég vil leyfa mér að efast um að reyndin sé sú sem könnunin gaf til kynna. Það er auðvelt að vera skynsamur þegar maður hefur svona ótilgreint tilfelli fyrir framan sig án þess að horfast í augu við viðkomandi aðila. Svarið er hins vegar það sama og áður, það er engum greiði gerður til langs tíma með því að segja ósatt.

Rósa sagði...

Ég hef skráð niður alls kyns atvik sem gætu valdið því að ég þyrfti að minnsta kosti að hugsa um tvisvar áður en ég gæfi svar: Ef vinkona mín væri alla jafna afar varkár ökumaður; þar sem við værum að keyra væri nýbúið að lækka hámarkshraðann; vinkona mín hefði þurft að glíma við erfitt mál og væri illa fyrir kölluð eða væri að drífa sig að dánarbeði náins ættingja! Hvað þá?

Nafnlaus sagði...

Ég hef verið í um 15 ár að vasast í gæðakerfum. Þau ganga út á að hafa réttar verklagsreglur (fyrirmæli) og að að geta sýnt fram á að verklaginu sé raunverulega beitt eða að gæðakerfið sé virkt. Úttektir sem maður gerir á svona kerfum hafa sýnt mér fyrir löngu að það er miklu meiri vinna og beinlínis erfitt og stundum flókið að ætla að ljúga. Það kemst yfirleitt upp. Því hef ég ályktað sem svo að best sé að segja ávallt satt. Þú tekur eftir að svarið er praktísk nálgun í þessu tilfelli, ekki siðferðileg.

kveðja
Sveinn

Rósa sagði...

Praktísk nálgun eins og þú notar hér, Svenni, gengur vel í siðfræðinni. Ég minnist þess að hafa heyrt siðfræðikennarann segja að hann teldi obbann af vandamálum okkar tengjast lygum. Þess vegna teldi hann réttara að segja alltaf sannleikann - þótt það gæti virst verri lausn til skamms tíma litið.

Í staðinn fyrir að segja ósatt fyrir vinkonu mína segi ég sannleikann - allan. Ef ég hef hvatt hana til að aka hraðar þá segi ég frá því og tek hluta af sökinni á mig. Ég segi líka frá aðstæðum eins og þær voru þegar hún ók á vegfarandann eins og þær eru frá mínu sjónarhorni - og þá er ég reyndar komin að nýju "vandamáli". Er bara einn sannleikur?

ps. Bið kærlega að heilsa Sigríði.