
Rósa ... Við erum staddar á Denver flugvelli. Það var seinkun á flugi en það sem verra er að flugfélagið okkar, JetBlue er ekki í tengslum við Icelandair. Ég var að vona að ég gæti tékkað allar fimm níðþungu töskurnar mínar alla leið heim í Keflavík - en sem sagt, við Ragnheiður munum þurfa að böðlast með þær aftur á morgun.
Ókum um Klettafjöll í dag, að mestu í rigningu. Vorum í rúmlega 13.000 feta hæð þegar við fórum hæst og töldum okkur finna fyrir því! Við stoppuðum aðeins hér og þar meðal annars í ekta kúrekabæ og skoðum þar "Historic Georgetown" og tókum myndir. Stoppið var stutt vegna úrhellis!
RMG . . . Í gærkveldi komum við til Bueno Vista sem er í Klettafjöllunum í Colorado. Krúttlegur bær. Þar gistum við á heimilislegu hóteli sem heitir Adobe Inn. Þar var heitur pottur.
Á leiðinni til Bueno Vista sáum við nautgripahjarðir á beit. Við fengum vatn í munninn og hugsuðum báðar að nú væri gott að fá steik í kvöldmat. Okkur var þá bent á veitingahús sem serverar bara fille mignon; enginn matseðill, bara fille mignon, 6, 9, 12 eða 16 oz. Við fengum okkur 6 oz og kláruðum hana upp til agna. Og það var enginn vínseðill, bara Merlot. Við fengum okkur Merlotflösku (sem við kláruðum reyndar ekki alveg) en flestir gestanna drukku bjór með sinni steik sem okkur fannst frekar ósívílíserað. Eftir matinn fórum við á krá og hittum þar káboj með mikið hár og skegg. Á hægri höndina vantaði þrjá fingur (löngutöng, baugfingur og litla fingur). Hann sagði okkur langa sögu af því hvernig skröltormur hefði bitið hann þegar hann var í útilegu í helli einum með vinum sínum.
Í morgun fengum við morgunmat á heimilislegu og vistvænu kaffihúsi. Þar var gott kaffi en hér má taka fram að við höfum alltaf fengið gott kaffi nema á Hilton hótelinu í Albuquerque. Svo fórum við í heita pottinn á hótelinu. Við tókum síðan upp harmónikkuna og skemmtum okkur sjálfum við spil og söng.

Þá hófst útsýnistúrinn yfir Klettafjöllin til Denver. En þar ausrigndi svo að ekki var nú útsýnið glæsilegt.

Þegar við komum til Boulder, sem er háskólabær í nágrenni við Denver, var hætt að rigna og við nutum þess að skoða miðbæinn - en best þótti okkur að finna snyrtistofu þar sem undirrituð fékk væna handsnyrtingu og Rósa fékk bæði vax og fótsnyrtingu. Og nú bíðum við á flugvellinum í Denver eftir seinkaðri flugvél.

Rósa... Við fórum til Boulder því þar var Þröstur bróðir við nám í University of Colorado at Boulder. Fundum háskólann auðveldlega og tókum þar nokkrar myndir til að sýna Þresti þegar heim kemur en hér koma tvær þeirra.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli