miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Náttúruhamfarir í New York, New York

RMG . . . Í nótt flugum við frá Denver, Colorado, til New York, New York. Vélin var tveimur tímum á eftir áætlun vegna þrumuveðurs í Boston en þaðan kom hún til Denver. Á leiðinni til NY slóraði hún lengi yfir Ohio (þetta sá ég allt á skjámynd þar sem hægt var að fylgjast með flugi vélarinnar), flaug upp og niður, austur og vestur til að bíða eftir lendingarveðri í NY. Þar hafði geisað mikið þrumuveður alla nóttina og þegar við loksins lentum og komumst í leigubíl inn á Manhattan fréttum við að neyðarástand ríkti í borginni vegna óveðursins um nóttina. Allar lestarsamgöngur lágu niðri og umferðin var algjört sultutau; ferð sem venjulega tekur 45 í gulum leigara tók 2 tíma og 15 mínútur.
Í NY hittum við dætur mínar og dótturson og urðu miklir fagnaðarfundir, eins og við mátti búast. Þó var fagnaðarlátunum stillt í hóf eftir aðstæðunum sem voru 35 stiga hiti og 90% raki; ekki mikið hægt að æsa sig í slíkum aðstæðum. Við skunduðum beint á loftkældan veitingastað og fengum okkur góðan mat og mikið vatn og sterkt kaffi.
Og nú erum við Rósa komnar á Kennedy-flugvöll og erum að drekka hestaskál vel heppnaðrar ferðar. Okkur hefur komið vel saman allan tímann; jaðraði aðeins við pirring í morgun þegar við lentum illa sofnar í hitanum á Kennedy þar sem við þurftum að koma farangrinum fyrir áður en við siluðumst inn til Manhattan. En það slapp fyrir horn og við erum eins og nýtrúlofaðar. Þetta var alletiders ferð og ég hlakka til að koma heim í kúrekastígvélunum og segja ferðasöguna aftur og aftur.

Rósa.... Ég er svoooo ánægð með að RMG kom með mér í þessa ferð sem við toppuðum hjá dætrum hennar og dóttursyni í dag (í eftirmiðdagskaffi í NY).

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Held að það hafi verið næstum eins gaman fyrir okkur hér að fylgjast með ykkur. En mikið verð ég fegin að fá þig aftur heim, Ragnheiður, það er býsna einmanalegt hér á heimavígvöllunum.

Rósa sagði...

Það er ægilega gott að finna að manns er saknað og að vinnufélagarnir sem og vinir og ættingjar vilja fá mann aftur heim!