miðvikudagur, ágúst 01, 2007

Þrumur og eldingar og úrhelli

Rósa.... Í dag fengum við sýnishorn af alls kyns veðri - rétt eins og náttúran væri að undirbúa mig fyrir að koma heim til Íslands. Ég lagði mig alla fram við að toppa RMG en hún gerði sér lítið fyrir og dansaði salsa á torginu í Flagstaff! Við því átti ég engan mótleik - hið eina sem ég gat gert var að gleðjast yfir að ferðast með þessari hæfileikaríku vinkonu. En þótt mér tækist ekki að toppa vinkonuna er ég ekki frá því að náttúrufegurð Sedona hafi tekið mikilfengleika Miklagljúfurs fram.

RMG . . . Á leiðinni til Sedona lentum við í úrhellisrigningu og þrumuveðri þegar við ókum í gegnum hrikalegt fjallaskarð. Við fórum úr 3000 m hæð niður í 2000 m en í Sedona skein sólin á risastóra, rauða klettaskúlptúra. Við fengum okkur gómsætan heimalagaðan ís í heimabökuðu kramarhúsi og horfðum á klettana meðan við slöfruðum í 0kkur ísinn. Fólkið í Sedona fæst mikið við andleg málefni og það er kannski ekki skrítið, nálægðin við þessa náttúrufegurð lyftir huganum í hæstu hæðir.
Þegar við komum aftur til Flagstaff fengum við okkur strút að borða og dönsuðum síðan salsa á balli á torginu (Rósa dansaði líka).

Klettaraðir rauðar
rísa hátt er skvísur
brun'að sjá Sedónu
sólarbjörtu hóla.
Borða strút og bæta
bumbu mjúka og strjúka.
Dansa salsa og sönsum
sínum halda fínum.


Engin ummæli: