laugardagur, ágúst 04, 2007

Skýjaborgir

Rósa . . . Í gær ókum við frá Gallup til Albuquerque með viðkomu í Acoma Pueblos eða Sky City. Þar hafa indjánar búið frá örófi alda og eru elstu húsin frá því á 12. öld. Í Acoma er byggðin uppi á sléttri klettaborg sem gnæfir upp úr flatlendinu - rétt eins og í Walpi - og húsin falla saman við klettana þegar horft er að neðan. Acomabúar hafa þjónað ferðamönnum í yfir hundrað ár og þar var allt með öðrum blæ en í Walpi, meiri reisn yfir öllu. Í gamla þorpinu búa 10-13 fjölskyldur, án rennandi vatns, skolpræsakerfis og rafmagns. Í þorpinu er kaþólsk kirkja frá miðri 17. öld og eru þorpsbúar kaþólskir en blanda hinni gömlu trú þjóðflokksins skemmtilega saman við kristnina.

Gallup þótti okkur ekki spennandi bær - en við fundum þar þó þetta fína kaffihús með heimabökuðu bakkelsi á boðstólum!Um nóttina gistum við á Hilton í Albuquerque - þar sem slegið var upp balli á sundlaugarbakkanum okkur til heiðurs - að við teljum!

Engin ummæli: