Við draugagjá!

Húsmóðirin á hlaðinu við tréð sitt!

Þjóðarflatbrauð í Walpi, aska notuð í stað bökunarsóda!

RMG . . . Í dag fórum við á slóðir Hopi-indíána. Fyrsti viðkomustaður var Old Oraibi sem er elsta samfelld byggð í Ameríku að sögn heimamanna, altso frá svona 1100 e. Kr. Þarna voru afar hrörleg hús og við gerðum stuttan stans í búð sem seldi heimilisiðnað. Þar keyptum við málaðar trédúkkur af manni sem lifði af því að framleiða og selja þær. Hér var stranglega bannað að taka myndir. Á leiðinni út úr þorpinu hittum við eineygðan indíána með svart hár niður í mitti sem sat í fótabaði fyrir utan húsið sitt. Hann var að kæla tærnar eftir hlaupatúr en þetta var hlaupari sem hleypur berfættur og ber nafn sem útleggst Steind Ör á íslensku (Painted Arrow á ensku). Hann bauð okkur inn á heimili sitt sem var nú ekki glæsilegt, heldur algjört hreysi, fannst okkur. En stoltur bauð hann okkur sæti og sýndi okkur myndir af sér þar sem hann hafði hlaupið til Mexíkóborgar 2000 mílur til að biðja um regn. Bauð okkur á mikla indíánahátíð sem stendur fyrir dyrum nálægt Albuquerque á laugardaginn. Við sjáum nú til en ekki er ólíklegt að við verðum einmitt á þessum slóðum á laugardaginn.
Eftir Oraibi fórum við til Walpi. Það er indíánaþorp uppi á hárri hæð. Þar búa 4 til 5 gamlar konur og halda við hefðum Hopi-indíána. Á meðan við biðum eftir leiðsögn heimakonu var okkur boðið inn á heimili gamalla systkina. Það var lítið en fallegt og snyrtilegra en hjá þeim eineygða.
Satt að segja erum við enn að melta hvað okkur finnst um þessi indíánasvæði. Þarna er fólk sem vill halda í gamlar hefðir og lífshætti; það talar ekki reiprennandi ensku heldur sitt eigið tungumál. Það lifir í mikilli fátækt og eina lífsafkoman virðist vera að selja heimilisiðnað, sem þýðir að þeir eiga allt sitt undir ferðamönnum. Það var afar athyglisvert að koma svona nálægt indíánunum og vera boðið inn á heimili þeirra og við erum afar snortnar. En tilfinningar okkar eru tvíbentar. Á morgun förum við á slóðir indíana í New Mexíkó og getum þá kannski sagt eitthvað fleira um þá reynslu.
Handofið veggteppi og tágakarfa á hótelinu okkar.
Bloggað um reynslu dagsins.

Rósa... Já, ferðin í dag var sannarlega áhrifarík en eiginlega líka átakanleg. Í "ferðaþjónustunni" í Walpi skildum við eftir tvo sólstóla. Það var eins og við værum að skilja eftir mikil verðmæti. En nú erum við komnar á gamalt hótel í Gallup, El Rancho Hotel. Þar hafa frægar kvikmyndastjörnur gist, samkvæmt því sem við lásum um hjá vinum okkar, Einar og Ólafi, í Úti að aka.
Eina stjarnan á hótelbarnum þann 2. ágúst 2007

RMG . . . Mig langar til að segja aðeins frá málfarspælingum mínum á Ameríkönum. Á þessum slóðum segja þeir mikið "y'all" þegar þeir ávarpa mann. "Wher'y'all from?" segja þeir þegar þeir spyrja hvaðan við erum. Og þegar við þökkum fyrir okkur og segjum "thank you" svara þeir "you bet".
Rósa... Allar myndir teknar með leyfi!
1 ummæli:
Gvuð hvað þetta lítur allt skemmtilega út hjá ykkur... og fróðlegt.
Sjáumst!
You bet so! ..eða eitthvað svoleiðis
Skrifa ummæli