föstudagur, maí 25, 2007

Að skrifa

ritgerðir virðist lítið mál í USD. Við skrifuðum hverja ritgerðina á fætur annarri, t.d. þrjár lokaritgerðir á þremur vikum. Enginn kvartaði yfir vinnuálagi og allir skiluðu á réttum tíma. Hér tíðkast ekki að biðja um frest á verkefnum, hvað þá að gefa frest. Hugsanlega er þetta eins í háskólum heima; en í menntaskólum brjóta menn eða sveigja skilafrest svo oft að það er fremur regla en undantekning. Það er mun verra að fá frest og draga vinnuna heldur en að virða skilatíma. Einnig verður maður að sætta sig við að hætta, að geta sagt: nú er þessu lokið. Það er líka svo gott því þá er hægt að snúa sér að nýjum viðfangsefnum.

Mér þótti merkilegt hvað ég gat skrifað mikið. Einnig fannst mér ánægjulegt að skrifin reyndust tiltölulega létt - engin ritstífla! Ég held að það stafi að hluta til af því að verkefnin voru skýrt afmörkuð. Einnig var áhersla lögð á að í ritgerðunum kæmi fram þekking á lesefninu fremur en að nemendur væru frumlegir. Loks var í öllum kúrsunum ætlast til að nemendur sýndu að hvernig þær gætu og myndu nýta sér þá þekkingu og hæfni sem þeir höfðu öðlast með náminu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já merkilegt og gott að heyra. Ég hef einmitt svolítið kviðið fyrir þessu, að fara að skila ritgerðum á ensku. Hrædd við ritstíflu og að enda með ritgerð sem byrjar eins og gamaldags enskustíll. Þetta vekur hjá manni smá von.

Nafnlaus sagði...

Ef ég færi aftur þá kviði ég frekar ritræpu en stíflu. Þú talar bara við mig ef eitthvað stendur á sér!

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir það!