Rósa . . . Komnar til Las Vegas - fyrsta áfanga lokið. Erum á flottasta hótelherbergi sem við höfum séð og höfum við þó marga fjöruna sopið. Ætli við förum nokkuð af herberginu fyrr en við tékkum okkur út eins og þið kannski skiljið ef þið kíkið á Venezia Luxury!

RMG. . . Rósa er mikil afrekskona. Í gær seldi hún bílinn sinn og í morgun skilaði hún íbúðinni sinni spikk and span og fær leigutrygginguna endurgoldna frá stranga leigusalanum sem er frönsk kona. Reyndar var ég aðeins stressuð í morgun þegar allt var á rúi og stúi í íbúðinni kortéri áður en von var á þeirri frönsku en Rósa slapp fyrir horn eins og alltaf. Hún pakkaði því sem hún vildi taka með og bar restina út að öskutunnunum. Draslinu henti hún en nýtilegt skildi hún eftir við tunnurnar enda lifa margir í San Diego á því að hirða úr öskutunnum. Í gær fórum við í manecure og pedicure og á meðan við sátum og létum dekra við okkur í nuddstólum komu þrír náungar að gramsa í ruslafötunni fyrir utan. Þetta sáum við út um dyrnar sem voru opnar.
Við Rósa erum góðar saman; hún er satt að segja dáldið óskipulögð og kærulaus en ég er ofurskipulögð og get orðið dáldið stressuð. En það er merkilegt hvað hún sleppur alltaf fyrir horn. Ég er viss um að hún getur kennt mér að vera aðeins kærulausari og kannski get ég kennt henni að vera skipulögð. Efast þó um það síðara.
Í dag ókum við frá San Diego til Las Vegas. Gerðum stuttan stans á Coronado eyju þar sem við fetuðum í fótspor Marilyn Monroe sem Hótel Coronado montar sig mikið af. Við ókum eftir vegi númer 15 en stundum skárum við Route 66 og í bænum Barstow tókum við bensín og borðuðum hamborgara á týpískum Diner sem er á Route 66. Þar var hitinn 45 gráður. Á leiðinni lásum við upp úr bókinni Úti að aka eftir Einar Kárason og Ólaf Gunnarsson en þeir óku þessa leið í öfuga átt fyrir ári. Þegar við komum til Las Vegas gátum við valið úr hótelum en okkur leist best á Hótel Feneyjar og þar erum við nú í góðu yfirlæti og förum ekki út fyrir dyr enda er hér allt sem þarf: Flott hótelherbergi á 30. hæð og spilavíti á fyrstu hæð. Nú förum við í svarta kjóla og háa hæla og spilum rúlettu. (Erum búnar að gera magaæfingarnar sem Rósa pínir mig í á hverjum degi.)
1 ummæli:
þið eruð æði. Magaæfingar á hverjum degi, það er þó skipulag!!!! ég gerði síðast magaæfingar 1700 og súrkál. En mikið held ég að þið munið skemmta ykkur.
kveðja Edda
Skrifa ummæli